mánudagur, desember 19, 2005

Skiptast á skin og skúrir

Komst í tvær skötuveislur þessa helgina. Á laugadag hjá ÍFR og svo hér heima á sunnudag. Virkilega hægt að gleðjast yfir því. Vonbrigðin urðu svo í morgun þegar jólaserían sem ég lagði svo snyrtilega í reynitréð á laugardaginn var komin í hengla eftir hvassviðri helgarinnar. En síðan varð aftur gaman þegar Dagur tilkynnti framboð. Ég hlakka til að kjósa hann í 1. sætið hjá Samfylkingunni.

föstudagur, desember 16, 2005

Aftur á lappir

Stóð upp úr lasleikanum á miðvikudaginn og mætti í vinnuna. Er að reyna að vinna upp tafirnar og er auk þess kominn á kaf í jólaundirbúning. Keypti skötuna í dag, lagði drög að kjötinu sem snæða skal um áramót og bakaða smákökur í kvöld undir vökulum augum mæðgnanna. Þín verslun fær sérstakt hrós. Þvílíkur munur að eiga svona kaupmenn við bæjardyrnar.

mánudagur, desember 12, 2005

Hallmar

Í dag hefði Hallmar orðið 26 ára. Fáir mundu eftir því. Inga Lára og Óli komum í heimsókn. Vala og Jóna hringdu. Afi hans og Amma í Asparfelli settu blóm á leiðið. Það var allt og sumt.

laugardagur, desember 10, 2005

Aumingjaskapur

Ligg í bælinu með pest. Kem litlu í verk á meðan, nema mér tókst að setja upp vefsíðu um fjölskylduna og svo hef ég hlustað og horft á NFS lon og don. Margt gott hjá þeim en mér finnst nú samt dálítið farið að slá í fréttir sem fluttar eru orðrétt frá morgni og fram á miðjan dag.

sunnudagur, desember 04, 2005

Jólin á leiðinni

Við hjónin fórum í jólakaupaleiðangur í Kringluna í gær. Ég fékkst sem sagt til þess að versla jólagjafir í Kringlunni í vitna viðurvist. Mér er greinilega að förlast. En sem ábót fórum við í Barnasmiðjuna í Grafarvogi og ég fékk að skyggnast bakatil. Það er mikið ævintýraland. Í dag fórum við svo í Árbæjarsafn með Hugrúnu Gretu, en hún gisti hjá okkur um helgina. Og ég er að setja upp jólaseríur á svalir og í tré og runna. Þær endast dapurlega stutt þessar með mörgu litlu ljósunum. Eins gott að þær eru ódýrar fyrir okkur sem kaupum. Maður þarf helst að endurnýja árlega. En hvað vinnuhendurnar (les: börnin) austur í Asíu, sem setja þær saman fá í kaup?