Melstaður
Þetta er nú aðallega fyrir sjálfan mig
miðvikudagur, maí 20, 2009
Vorverkin í Selinu
Þá erum við byrjuð að "planta" í Selinu. Fyrst þarf reyndar að grafa holur fyrir væntanlegum trjám og til þess þarf voldugann járnkall sem ég verslaði mér í vikunni. Á morgun byrjar svo vinna. En finnst ég er byrjaður í þriðja sinn þá þarf ég að vísa á vefinn sem ég setti upp fyrir Sporið. Slóðin er http://sporid.vesturland.is
Við erum búin að bóka okkur í nokkrar sýningar í sumar. Ég þjófstartaði um daginn meðan Habbý söng fyrir Kópavogsbúa á Kópavogsdögum
laugardagur, mars 28, 2009
Landsfundur - Dagur 1
Ég sótti Landsfund Samfylkingarinnar í dag. Ætlunin er að prófa að sitja heilan landsfund og taka þátt í málefnastarfi. Ég hef verið meðlimur frá stofnun flokksins en aldrei starfað neitt. Nú skal prófa. Dagurinn var misjafn. Fundurinn byrjaði vel. Umgjörðin falleg, loftbólur á sviðinu og salurinn fullur af fólki. ISG stóð undir væntingum en ég missti af Guðmundi Andra. Biðröðin í skráningu var svo fj. löng og hæg. Finn ræðuna vonandi einhvers staðar á netinu. Svo hófst málefnastarfið.
Ég valdi hóp sem kallast Efnahagsleg endurreisn. Árni Páll og Sigríður Ingibjörg stjórnuðu stórum hópi af röggsemi og sáu til þess að allir fengu orðið. Ég kom að athugsemd um bankana og önnur fyrirtæki sem komin eru í fangið á ríkinu. Inn í drögin sem fyrir fundinum lágu vantar áætlun og markmið um að koma þeim úr höndum ríkisins. Það verður að vera ofarlega á verkefnalista næstu ríkisstjórnar. Mér sýnist skjaldborgin um heimilin vera risin. Forsenda endurreisnar efnahagslífsins er nú að koma rekstargrundvelli undir fyrirtækin og af höndum ríkisins.
miðvikudagur, mars 19, 2008
Aftur í gang
Loksins tókst mér að starta blogginu aftur. Enda kannski full ástæða og kominn tími til. Við hjónin erum ss. á leið til Tenerife í vikufrí. Undanfararnir Inga og Óli eru búin að gera allt klárt. Ég hlakka til að komast í sólin og afslöppun með góðan skammt af lesefni í töskunum. Meir um það síðar. Bíllinn bíður þess að keyra mig suðrá völl.
þriðjudagur, febrúar 14, 2006
Valintínusardagurinn
Ég dag fékk ég Valintínusargjöf frá minni elskulegu Eiginkonu. Þá fyrstu á ævinni. Sæt og mjúk sykur og súkkulaðikaka úr bakaríi í Kóngsins Kaupmannahöfn.
fimmtudagur, janúar 19, 2006
"Víst hafa skattarnir lækkað,
menn eru bara lengur að vinna fyrir þeim". Sagði Albert Guðmundsson eitt sinn þegar hann var fjármálaráðherra og var orðin rökþrota þegar blaðamaður spurði hann dálítið ákveðið. Hið sama má lesa úr orðum Árna Matt í Mogganum í dag og "Bjargvætturinn" sagði fullu fetum í dag við Þorfinn Ómarsson að það hefði verið með ráðum gert að auka tekjur ríkissjóð á undanförnum árum. Samt hafa stjórnarherrrarnir klifað á því að skattar hafi lækkað. Skyldi þeir halda því á fram eftir fréttina frá OECD í dag.
þriðjudagur, janúar 17, 2006
Þjórsárverum bjargað
Sókn virkjunarmanna inn á hálendið var stöðvuð af Borgarstjórn í dag. Nú er bara að reka flóttann. Ég spái því að tími stórvirkjana á hálendinu sé liðinn og eftir 10-20 ár verði Kárahnjúkavirkjun almennt talin meirihátta umhverfisslys.
föstudagur, janúar 13, 2006
Hert viðurlög
Sigurður Kári ætlar að leggja fram frumvarp um verulega hert viðurlög við meiðyrðum. Ef ég skil rétt er þetta breyting í þá átt sem tíðkast hefur í Bretlandi og kom Hannesi Hólmsteini illa í koll á síðasta ári. Ýmsir gildir álitsgjafar voru lítt hrifnir af þeirri meðferð sem Hannes fékk þá. Hvaða álit skildu þeir hinir sömu hafa á frumvarpi Sigurðar Kára?
föstudagur, janúar 06, 2006
Liðstyrkur
Það gleður mitt kratahjarta þegar kvarnast úr vinstri grænum. Ég ætla að setja hana Björk Vilhelmsdóttur í gott sæti.
mánudagur, desember 19, 2005
Skiptast á skin og skúrir
Komst í tvær skötuveislur þessa helgina. Á laugadag hjá ÍFR og svo hér heima á sunnudag. Virkilega hægt að gleðjast yfir því. Vonbrigðin urðu svo í morgun þegar jólaserían sem ég lagði svo snyrtilega í reynitréð á laugardaginn var komin í hengla eftir hvassviðri helgarinnar. En síðan varð aftur gaman þegar Dagur tilkynnti framboð. Ég hlakka til að kjósa hann í 1. sætið hjá Samfylkingunni.
föstudagur, desember 16, 2005
Aftur á lappir
Stóð upp úr lasleikanum á miðvikudaginn og mætti í vinnuna. Er að reyna að vinna upp tafirnar og er auk þess kominn á kaf í jólaundirbúning. Keypti skötuna í dag, lagði drög að kjötinu sem snæða skal um áramót og bakaða smákökur í kvöld undir vökulum augum mæðgnanna. Þín verslun fær sérstakt hrós. Þvílíkur munur að eiga svona kaupmenn við bæjardyrnar.
mánudagur, desember 12, 2005
Hallmar
Í dag hefði Hallmar orðið 26 ára. Fáir mundu eftir því. Inga Lára og Óli komum í heimsókn. Vala og Jóna hringdu. Afi hans og Amma í Asparfelli settu blóm á leiðið. Það var allt og sumt.
laugardagur, desember 10, 2005
Aumingjaskapur
Ligg í bælinu með pest. Kem litlu í verk á meðan, nema mér tókst að setja upp vefsíðu um fjölskylduna og svo hef ég hlustað og horft á NFS lon og don. Margt gott hjá þeim en mér finnst nú samt dálítið farið að slá í fréttir sem fluttar eru orðrétt frá morgni og fram á miðjan dag.
sunnudagur, desember 04, 2005
Jólin á leiðinni
Við hjónin fórum í jólakaupaleiðangur í Kringluna í gær. Ég fékkst sem sagt til þess að versla jólagjafir í Kringlunni í vitna viðurvist. Mér er greinilega að förlast. En sem ábót fórum við í Barnasmiðjuna í Grafarvogi og ég fékk að skyggnast bakatil. Það er mikið ævintýraland. Í dag fórum við svo í Árbæjarsafn með Hugrúnu Gretu, en hún gisti hjá okkur um helgina. Og ég er að setja upp jólaseríur á svalir og í tré og runna. Þær endast dapurlega stutt þessar með mörgu litlu ljósunum. Eins gott að þær eru ódýrar fyrir okkur sem kaupum. Maður þarf helst að endurnýja árlega. En hvað vinnuhendurnar (les: börnin) austur í Asíu, sem setja þær saman fá í kaup?
sunnudagur, nóvember 27, 2005
Gísli Marteinn alltaf góður
Heyrði hluta af Silfri Egils í dag. Egill spurði hvernig ætti að fá stjórnvöld til þess að taka aftur rangar ákvarðanir. Var með Hringbrautina og LSH í huga. Gísli Marteinn svaraði með ræðu um "Minn Garðabæ"!! Synd að hann skuli ekki vera borgarstjórakandidatinn. Annars er Egill orðinn svo þröngsýnn og einstrengingslegur uppá síðkastið. Hann er kominn með Hringbrautina á heilann!